Greiðsluveitan ehf
Siðareglur
1. Inngangur
Tilgangur Greiðsluveitunnar er að starfrækja greiðslukerfi (fjármálainnviði) og önnur þjónustukerfi tengd greiðslumiðlun í samræmi við gildandi lög og reglur, þ.á m. að viðhalda og tryggja öryggi og virkni þeirra, svo og skyld starfsemi.
Stjórn Greiðsluveitunnar leggur áherslu á að starfsemi og viðskipti félagsins séu stunduð af heilindum og að orðspor viðskiptavina sem og félagsins, stjórnar og starfsmanna sé í heiðri haft.
Stjórn félagsins telur mikilvægt að í gildi séu siðareglur sem eru leiðbeinandi þegar kemur að því að gæta siðferðislegrar og samfélagslegrar ábyrgðar, bæði innan stjórnar, í félaginu og út á við.
2. Gildissvið
Siðareglur þessar gilda um stjórn félagsins, stjórnendur og alla starfsmenn.
Siðareglurnar eru ennfremur hafðar til hliðsjónar við val á og endurnýjun samninga við:
- verktaka
- ráðgjafa
- birgja og
- aðra samstarfsaðila félagsins
Það er á ábyrgð stjórnar og allra yfirmanna Greiðsluveitunnar að hafa forgöngu um eftirfylgni með siðareglunum og vera öðrum fyrirmyndir í þeim efnum, og hverjum og einum sem undir siðareglurnar falla ber að fara eftir ákvæðum þeirra og tileinka sér í daglegum störfum sínum.
3. Markmið
Markmið siðareglna þessara er að tryggja að viðskipti félagsins séu stunduð af heilindum og að orðspor okkar og viðskiptavina okkar sé í heiðri haft.
Við einsetjum okkur að þekkja, skilja og fara eftir þeim lögum, reglum, starfsháttum og siðareglum sem gilda um störf okkar, og við leitum okkur aðstoðar ef við teljum að okkur skorti nauðsynlegan skilning eða ef við teljum að lög eða siðareglur hafi verið brotin.
Það er á ábyrgð stjórnar og allra yfirmanna að hafa eftirlit með og bregðast við ábendingum um atriði sem varða brot á lögum eða siðareglum þessum og koma slíkum málum í viðeigandi farveg.
4. Starfsfólkið
Greiðsluveitan heitir að virða hvers konar starfstengd réttindi starfsmanna sinna í samræmi við lögboðin réttindi launafólks.
Við leggjum ríka áherslu á þjálfun, heilsu og öryggi starfsmanna í þeim tilgangi að tryggja þeim bestu starfsaðstæður. Við leggjum ríka áherslu á velferð og réttaröryggi starfsmanna og líðum ekki neins konar ógnun eða þvingun gagnvart starfsfólki okkar. Við leggjum áherslu á fjölbreytni og jafnrétti starfsmanna.
5. Góðir viðskiptahættir
Við störfum af heilindum og hlutleysi og viljum viðhalda og tryggja öryggi og innviði greiðslumiðlunarkerfa og annarra kerfa í eigu og/eða rekstri félagsins. Við viljum forðast aðstæður sem gætu valdið vanhæfi eða gefið tilefni til að draga óhlutdrægni okkar í efa.
Við leggjum ríka áherslu á lögboðna og góða stjórnarhætti Greiðsluveitunnar sem og trúnað gagnvart viðskiptavinum.
Greiðsluveitan á aðeins viðskipti við birgja og viðskiptavini sem félagið treystir og tekur ekki þátt í neins konar ólögmætum viðskiptum eða aðgerðum.
Við erum afdráttarlaus í því að iðka góða viðskiptahætti og þræðum ekki markalínur þess löglega eða siðferðislega rétta.
6. Reglur um viðskipti, gjafir og hagsmunaárekstra
Öll viðskipti Greiðsluveitunnar eru framkvæmd á viðskiptalegum forsendum og við líðum aldrei mútur, spillingu, hagsmunárekstra, né neins konar óviðeigandi fyrirgreiðslu, hvort heldur af okkar hálfu eða gagnvart okkur.
Þess vegna gætum við m.a. sérstaklega að eftirfarandi:
- Við þiggjum ekki gjafir af viðskiptavinum, birgjum eða af væntanlegum viðskiptavinum eða birgjum, nema um óveruleg verðmæti sé að ræða eða um sé að ræða persónuleg tengsl sem ekki verða rakin til viðskipta við félagið.
- Við þiggjum ekki boðsferðir, innanlands sem utan, af viðskiptavinum eða birgjum.
- Við þiggjum ekki þjónustu og viðskiptakjör sem öðrum viðskiptamönnum stendur ekki til boða í sambærilegum tilvikum.
- Við gerumst ekki umboðsmenn annarra gagnvart Greiðsluveitunni.
Hagsmunir okkar fara með hagsmunum Greiðsluveitunnar og mega persónulegir hagsmunir okkar eða tengdra aðila aldrei rekast á við starfsskyldur okkar og trúnað gagnvart félaginu. Við komum því ekki að ákvörðunum sem við eða aðilar tengdir okkur, aðrir en eigandi Greiðsluveitunnar, kunna að hafa persónulegan hag af, né sinnum öðrum störfum eða stöðum sem skapað geta hagsmunaárekstur við félagið.
Greiðsluveitan veitir ekki fjárhagsleg framlög til stjórnmálaflokka.
Við vinnum markvisst að því að efla þekkingu okkar á viðfangsefnum okkar og leitumst við að vera vel upplýst um þá starfsemi sem félagið hefur með höndum og höfum góða þekkingu á því sem ætlast er til af okkur.
Ef við erum í minnsta vafa um heimildir okkar til móttöku gjafa eða annars konar fyrirgreiðslna leitum við ávallt álits framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjóri leitar álits stjórnar sem hefur samráð við Innri endurskoðanda Greiðsluveitunnar.
7. Eignir félagsins
Það er skylda okkar allra að ráðstafa eignum og fjármunum Greiðsluveitunnar aðeins í þágu félagsins en ekki til persónulegra nota eða hagsbóta.
Sérstaklega skal gætt að meðferð rafrænna gagna og slík gögn meðhöndluð og varðveitt á ábyrgan og viðeigandi hátt.
8. Samfélagsleg ábyrgð
Greiðsluveitan leggur áherslu á samfélagslega ábyrgð, umhverfismál og sjálfbærni í starfsemi sinni og við gerum ríkar kröfur til okkar sjálfra og birgja okkar þegar kemur að þeim málaflokkum.
Við förum að gildandi lögum hverju sinni varðandi umhverfismál og heitum að hafa sem minnst áhrif á umhverfi okkar.
Við virðum mannréttindi í hvívetna og stefnum að því að eiga góð samskipti við nærsamfélag okkar og að hafa góð áhrif á það.
9. Trúnaðarskylda og trúnaðarupplýsingar
Ákvarðanir okkar byggja á sjálfstæðu mati og eigin sannfæringu. Við hlítum þeim lögum og reglum sem Greiðsluveitan starfar eftir. Við stöndum vörð um heiður Greiðsluveitunnar og aðhöfumst ekki neitt það sem kynni að vera til þess fallið að rýra álit viðskiptavina eða samfélagsins á félaginu og starfsemi þess. Við erum öll fulltrúar félagsins innan og utan vinnutíma, þar með talið á samfélagsmiðlum, og sýnum ekki af okkur neina þá hegðun sem skaðað getur eða rýrt orðspor eða trúverðugleika félagsins.
Við nýtum ekki trúnaðarupplýsingar, sem við höfum fengið vitneskju um í starfi okkar hjá félaginu, til fjárhagslegs ávinnings eða til að forðast fjárhagslegt tjón okkar sjálfra eða annarra. Við viðhöfum sérstaka varúð við geymslu, ljósritun, tölvuskráningu og eyðingu gagna sem tengist starfsemi félagsins.
Við komum fram við aðra stjórnarmenn, starfsmenn, viðskiptavini og samstarfsaðila af virðingu og kurteisi óháð kyni, trú, stjórnmálaskoðunum eða annarri aðgreiningu.
Við erum bundin þagnarskyldu um hvað eina sem við verðum áskynja í störfum okkar varðandi viðskiptamenn okkar, sem og um starfsemi félagsins, og helst sú skylda þegar störfum okkar fyrir félagið líkur.
10. Brot á lögum eða reglum og viðurlög
Við erum staðráðin í því að láta óréttmæta viðskiptahætti aldrei viðgangast og það er skylda hvers og eins okkar að standa vörð um að hvorki eigi sér stað lögbrot, brot á siðareglum þessum eða brot á annars konar reglum eða gildandi starfsháttum Greiðsluveitunnar.
Ef við erum í vafa hvort um brot er að ræða, getur hjálpað að spyrja okkur sjálf eftirfarandi spurninga:
- Er þetta löglegt og í samræmi við siðareglurnar?
- Er þetta rétt?
- Hefur þetta góð áhrif á ímynd mína og Greiðsluveitunnar?
- Líður mér vel með sjálfa(n) mig vegna þessa?
- Myndi samviskusöm manneskja gera þetta?
- Er útilokað að ég nái sama markmiði á annan hátt sem ekki vekur upp siðferðisspurningar?
- Get ég sagt viðeigandi hagsmunaaðilum frá þessu?
Ef einhverri ofangreindra spurninga er svarað neitandi eru líkur á að um sé að ræða brot gegn siðareglunum.
Hafi starfsmenn rökstuddan grun um slík brot, ber þeim að leita til einhvers af eftirfarandi aðilum:
- framkvæmdastjóra
- innri endurskoðanda eða
- formanns stjórnar Greiðsluveitunnar.
Allar ábendingar um brot, hvort heldur munnlegar eða skriflegar, eru teknar alvarlega og rannsakaðar.
Starfsmönnum verður aldrei refsað, hvorki með beinum eða óbeinum hætti, ef þeir í góðri trú koma á framfæri ábendingu um rökstuddan grun um brot samkvæmt þessari grein.
11. Viðurlög
Brot gegn siðareglum þessum geta varðað áminningu og jafnvel brottrekstri, í samræmi við viðeigandi vinnulöggjöf hverju sinni.
Reykjavík, 10. maí 2017