Categories

Framtíðarvettvangur

Framtíðarvettvangur er vettvangur um framtíðarstefnumótun fyrir fjármálainnviði í landinu  með áherslu á grunninnviði greiðslumiðlunar og tengda innviði. Vettvangurinn var settur á fót af Seðlabanka Íslands í nóvember 2021 og mun hafa almannahagsmuni að leiðarljósi í störfum sínum. Stofnun hans kemur í kjölfar viðamikillar vinnu sl. ára við endurskipulagningu fjármálainnviða hér á landi.

Framtíðarvettvangur starfar undir forystu Seðlabanka Íslands og skal með skilvirkni, öryggi og hagkvæmni að leiðarljósi fjalla um framtíðarsýn og áherslur í þróun fjármálainnviða hér á landi. Framtíðarvettvangur fylgist jafnframt með þróun fjármálainnviða á alþjóðavettvangi og nýjungum sem þýðingu geta haft hér á landi. Framtíðarvettvangur skal einnig taka á móti hugmyndum eða tillögum um nýtt samstarf á sviði fjármálainnviða og leggja mat á þær. Framtíðarvettvangur mun eingöngu taka til skoðunar verkefni sem Seðlabannkinn telur nauðsynleg og í samræmi við lögbundið hlutverk sitt eða verkefni sem eru í þágu fleiri en eins kerfislega mikilvægs banka.

Í framtíðarvettvangi sitja fulltrúar frá Seðlabanka Íslands, Arion banka hf., Íslandsbanka hf., Landsbankanum hf., Kviku banka hf., Reiknistofu bankanna hf., fjármála- og efnahagsráðuneytinu auk þess sem aðrar innlánsstofnanir tilnefna sameiginlega einn fulltrúa.

Greiðsluveitan ehf., dótturfélag Seðlabankans, sinnir umsýslu og rekstri vettvangsins fyrir hönd bankans.

Hugmynd eða tillaga um nýtt samstarf á sviði fjármálainnviði skal beint til Framtíðarvettvangs með því að fylla út eyðublað og senda ásamt fylgiskjölum á netfangið fv@gv.is. Farið er með hugmyndir í samræmi við reglur vettvangsins um meðferð trúnaðarupplýsinga.

Eyðublað – Tillaga að verkefni